Sjálfbærni

Einfaldasta skilgreining á sjálfbærri þróun er þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að möguleikar komandi kynslóða á að mæta sínum þörfum skerðist. Hún byggist á þremur meginstoðum, vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri. Þær eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri og horft er til hnattarins í heild sinni. Lengi vel var horft á meginstoðirnar þrjár sem einangraðar og aðskildar en með snertiflöt hver við aðra. Þannig var reynt að leysa vandamál t.d. hagkerfis án tilliti til samfélags eða samfélagsvandamál án tilliti til náttúru og umhverfis. Líklegri til árangurs er að horfa á þá staðreynd að auðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar og mynda þar með lokuð kerfi sem samfélagið og efnahagslífið eru hluti af. Innan náttúrunnar hefur maðurinn skapað samfélagið og hagkerfið hefur maðurinn mótað innan samfélagsins. Það er því augljóst að hagkerfið verður að taka mið af þeim gildum sem móta gott samfélag og samfélagið þarf að laga sig að þeim reglum og lögmálum sem náttúran setur.

Helstu einkenni sjálfbærrar þróunar eru réttlæti innan og milli kynslóða, siðferðislegur grunnur, heilstæð sýn, alþjóðleg nálgun, þátttökunálgun og nauðsyn um nýja hagfræðilega stefnumörkun þar sem hagvöxtur er ekki lengur notaður sem vísir að velgengni.

Sjálfbærni er það ástand sem ætlast er til þess að ná með sjálfbærri þróun. Þetta er jafnvægisástand og þar sem við höfum engan vegin náð þessu ástandi má segja að orðið sjálfbærni sé leiðandi hugtak. Mismunandi breytingar þurfa að eiga sér stað til þess að samfélög þróast í átt að sjálfbærni, m.a. breytingar í krafti stjórnmála, með fjárhagslegum ívilnunum eða tæknilegum lausnum. Okkar eigið framlag er hins vegar það mikilvægasta og liggur lykillinn að sjálfbærri þróun í því að við breytum gildum okkar og lífssýn og þar með lífsstíl. 

Þann 25. september 2015 voru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samþykkt. Um er að ræða framkvæmdaáætlun fram til ársins 2030 í þágu mannskyns, jarðar og hagsældar. Þar er leitast við að stuðla að friði og auknu frelsi. Útrýming fátækar í öllum sínum myndum er stærsta verkefnið og grunnskilyrði fyrir sjálfbærri þróun. Markmiðin eru 17 talsins og undirmarkmiðin 168.