Samstarfsaðilar

 

Austurbrú

Austurbrú vinnur að hagsmunamálum íbúa á Austurlandi og veitir samræmda og þverfaglega þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu. Stofnunin er í forsvari fyrir þróun samfélags, atvinnulífs, háskólanáms, símenntunar, rannsókna og menningarstarfs á Austurlandi.

Eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Austurlands er starf menningarfulltrúa sem m.a. leiðir saman ólíka aðila. Fullveldisverkefnið er dæmi um það. Elfa Hlín Pétursdóttir, verkefnisstjóri, hefur stýrt verkefninu.

 

Gunnarsstofnun

Á Skriðuklaustri rekur Gunnarsstofnun menningar- og fræðasetur með lifandi menningarstarfsemi árið um kring, sýningum, tónleikum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum. 

Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir (Skotta) hefur komið að verkefninu fyrir hönd Gunnarsstofnunar.

 

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Það hýsir einnig bókasafn og Ljósmyndasafn Austurlands. 

Bára Stefánsdóttir hefur komið að verkefninu fyrir hönd Héraðsskjalasafnsins.

 

Menntaskólinn á Egilsstöðum

Menntskólinn á Egilsstöðum var stofnaður árið 1979. Hann er áfangaskóli sem vill vera góður kostur fyrir þá sem hyggjast stunda framhaldsnám að grunnskóla loknum. Skólinn er hæfilega stór og persónulegur svo enginn týnist í fjöldanum. Hann býður upp á nám á fjórum stúdentsbrautum en auk þess eru tvær framhaldsskólabrautir við skólann sem og starfsbraut fyrir fatlaða nemendur. 

Árni Ólason og Magnús Halldór Helgason hafa komið að verkefninu fyrir hönd Menntaskólans.

 

Minjasafn Austurlands

Minjasafn Austurlands varðveitir minjar um sögu, menningu og samfélag fjórðungsins. Á safninu eru tvær grunnsýningar, annars vegar sýningin Hreindýrin á Austurlandi og hins vegar sýningin Sjálfbær eining. Þar fyrir utan eru settar upp margvíslegar smærri sýningar yfir árið og stendur safnið, í samstarfi við önnur söfn í sama húsi, fyrir margvíslegum viðburðum árið um kring.

Elsa Guðný Björgvinsdóttir hefur komið að verkefninu fyrir hönd Minjasafnsins.

 

Landgræðsla ríkisins

Landgræðsla ríkisins heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og vinnur samkvæmt lögum um landgræðslu að stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar, gróðureftirliti og gróðurvernd. Ennfremur að fræðslu, leiðbeiningum, rannsóknum og þróunarstarfi á þessu sviði.

Megintilgangur landgræðslustarfsins er að stöðva hraðfara jarðvegsrof og gróðureyðingu og fyrirbyggja frekari eyðingu og landsspjöll, byggja upp gróður og jarðveg í samræmi við gróðurskilyrði og landnýtingarþörf, gera landnýtingu sjálfbæra og binda kolefni í gróðri og jarðvegi til mótvægis við losun gróðurhúsalofttegunda.

Guðrún Schmidt hefur komið að verkefninu fyrir hönd Landgræðslunnar.

 

Safnastofnun Fjarðabyggðar

Safnastofnun Fjarðabyggðar hefur umsjón með safna- og menningarmálum Fjarðabyggðar, allt frá almennum bókasöfnum að margs konar byggðatengdum söfnun sem geyma sögu sveitarfélagsins hvert með sínu móti. 

Pétur Sörensson hefur komið að verkefninu fyrir hönd Safnastofnunar.

 

Skólaskrifstofa Austurlands

Skólaskrifstofa Austurlands er byggðasamlag 8 sveitarfélaga á Austurlandi frá Vopnafirði í norðri til Djúpavogshrepps í suðri. Nemendur á svæði skrifstofunnar eru um 1400 í 14 grunnskólum og um 650 börn í jafnmörgum leikskólum. Starfsemi skrifstofunnar byggir á samningi byggðasamlagsins og lögum um leik- og grunnskóla nr. 90 og 91/2008 og reglugerð nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum.

Sigurbjörn Marinósson hefur komið að verkefninu fyrir hönd Skólaskrifstofunnar.

 

Tækniminjasafn Austurlands

Tækniminjasafn Austurlands er staðsett á Seyðisfirði og hefur aðsetur í nokkrum sögufrægum húsum. Þar er fjallað um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Sýndir eru m.a. munir, minjar, hús, myndir og verkferlar. Safnið er sérhæft sem minjasafn er fjallar um nútímavæðingu og aðrar menningarminjar sem eru ekki til sýnis í mörgum öðrum söfnum landsins.

Pétur Kristjánsson hefur komið að verkefninu fyrir hönd Tækniminjasafnsins.