Fullveldi

fullveldi_landscape.jpg
 

Hvað er fullveldi? Af hverju er mikilvægt að hafa fullveldi? Getum við glatað fullveldinu?

Víðtakasta skilgreining á fullveldi er að ríki sem er fullvalda hefur rétt til lagasetningar, lögmætt ríkisvald innanlands og aðrar þjóðir viðurkenna fullveldi þess. Fullvalda ríki getur tekið þátt í alþjóðasamstarfi.

Fullveldi hefur einnig félagslega eða pólitíska vídd og tengist mjög sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og hugmyndum um þjóðareiningu og þjóðarsál.

Til að vera fullvalda þarf ríki að vera efnahagslega sjálfstætt og geta varið sig gegn ógn og áföllum, innanlands sem utan. Ef það getur það ekki, þá er þörf á alþjóðlegri samvinnu og er aðild okkar að NATO og EES ágætis dæmi um það. Flest fullvalda ríki deila eða framselja hluta af valdi sínu í dag með alþjóðasamvinnu ýmis konar, hvort sem um er að ræða tolla-, efnahags- eða hernaðarbandalög. 

Alþjóðavæðingin hefur jafnframt ýmsar afleiðinga sem snerta fullveldi þjóða. Hún knýr t.d. á um lýðræðisumbætur en um leið minnkar sjálfstjórn ríkja og mikil völd og áhrif hafa færst yfir til stórfyrirtækja frá ríkjunum. 

Á Íslandi hefur almenn söguskýring verið sú að fullveldinu 1918 hafi verið náð eftir hetjulega baráttu íslenskra sjálfstæðissinna fyrir auknum réttindum og sjálfstjórn og því sé hægt að missa það úr okkar höndum aftur. Yngri kynslóðum ber að standa vörð um fullveldið . Rétt er þó að hafa í huga að á þessum tíma var laga- og þjóðréttarlega staða ríkja í mótun og lok fyrri heimsstyrjaldar hafði mikil áhrif á  að afleggja nýlenduveldi. Því má segja að fullveldi Íslands hafi verið hluti af sögulegri þróun almennt.

Austurland er vissulega ekki fullvalda ríki né landshluti miðað við þær skilgreiningar sem hér hafa verið taldar upp. Það er ekki efnahagslega sjálfstætt, getur ekki varið sig sjálft gagnvart ýmis konar ógn og hefur ekki staðfestingu utan frá á fullveldi sínu. Rétt er að taka fram að það hefur ekki heldur sóst eftir því. 

Ef fullveldisspeglinum er beint að Austurlandi síðustu hundrað árin, hvað kemur þá í ljós?

Í ár fagna Íslendingar 100 ára Fullveldisafmæli sínu með ýmsum hætti. Frekari upplýsingar og fróðleik má finna á vef fullveldisafmælisins.