Fræðsluverkefni

Hér eru hugmyndir að fræðsluefni og verkefnum er tengjast verkefninu og umfjöllunarefnum þess. Margt er hægt að vinna beint í kennslustofu en ekki spillir að heimsækja sýningarnar, eina eða fleiri líka, til að fá betri tilfinningu fyrir efninu.

Boðið er upp á fræðslu og móttöku nemenda á Minjasafni Austurlands (elsa@minjasafn.is), Skriðuklaustri (skotta@skriduklaustur.is) og Tækniminjasafni Austurlands (tekmus@tekmus.is).

 

Sjálfbær þróun og fullveldI

Fyrir heimsókn er gott að horfa á:

Inngangur og kynning - 20 mínútur

Þegar komið er á sýningarstað er byrjað á að spyrja nemendur þessara spurninga:

  • Hver eru stærstu vandamálin sem við stöndum frammi fyrir í heiminum í dag? (grunnskólar og framhaldsskólar)

  • Heldur þú að öll börn í heiminum fái nóg að borða? (leikskólar)

  • Hvað er fullveldi? Skilja þau það. Skiptir það máli í dag?

Næst er stutt kynning á hugtakinu sjálfbær þróun og sjálfbærnimarkmiðum SÞ.

Þá er stutt kynning á öllum 4 sýningunum og börnunum átta.

Skoðun á sýningunni – 20 mínútur

Þegar búið er að skoða sýninguna væri hægt að velja um mismunandi verkefni sem má sjá hér að neðan.

Ímyndunaraflsferðalag

Krakkarnir liggja á gólfinu og loka augunum. Saga af einum degi úr lífi barns 1918 er lesin hægt að rólega. Krakkarnir eiga að ímynda sér að þetta væru þau sjálf. Þegar þetta er búið eru rætt um það hvernig þeim leið og hvað þau voru að hugsa o.s.frv. Jafnvel er hægt að láta þau teikna eitthvað sem þau sáu fyrir sér á meðan þau voru með augun lokuð

stígðu fram - leikur um ójafnar aðstæður og tækifæri

Markmiðið er að auka meðvitund þátttakenda um mismunandi möguleika og aðstæður fólks og það að tilheyra ákveðnum hópi getur haft áhrif á möguleika fólks.

Frekari lýsingu má finna hér en hægt er að breyta staðhæfingum og samsetningu hópa eftir þörfum.

Ég fyrir 100 árum

Krakkarnir beðnir um að búa til sambærilega sögu af sjálfum sér árið 1918,og velja tvö til þrjú heimsmarkmið til að spegla í sögunni.

Yngri börn gætu jafnvel teiknað sig fyrir 100 árum síðan á meðan þau eldri skrifa niður söguna.

ég eftir 100 ár

Krakkarnir beðnir um að búa til sambærilega sögu af sjálfum sér árið 2118,og velja tvö til þrjú heimsmarkmið til að spegla í sögunni.

Yngri börn gætu jafnvel teiknað sig eftir 100 ár á meðan þau eldri skrifa niður söguna.

Heimsmarkmiðin og börnin

Nemendur vinna saman í hóp og greina hvernig sögurnar af börnunum passa við þau heimsmarkmið sem verið er að fjalla um. Hvað í sögunni um 10 ára strákinn á Héraði vísar til markmiðsins um Ekkert hungur o.s.frv.

Ítarefni og frekari hugmyndir

Til er fjöldinn allur af áhugasömum verkefnum sem tengjast sjálfbærri þróun og fullveldi. Hér má finna nokkur.