Viðburðir 1. desember 2018

 

Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi? - Lokahóf

Lokahóf verkefnisins „Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi“ verður haldið í Menntaskólanum á Egilsstöðum á fullveldisdaginn 1. desember. Í verkefninu voru skoðuð tengsl fullveldis og sjálfbærrar þróunar á Austurlandi fyrr og nú með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í húsnæði Menntaskólans verða fjórar sýningar úr fjórðungnum settar upp þennan eina dag þar sem heimsmarkmiðin eru spegluð í gegnum líf austfirskra barna.

Nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum munu á margvíslegan hátt varpa ljósi á umhverfismál og sjálfbæra þróun, fyrr og nú og ekki síst til framtíðar.

Kaffiveitingar á þjóðlegum nótum, austfirsk ungskáld, fjölbreytt tónlistaratriði og lokaverkefni er tengjast sjálfbærri þróun, fjölbreyttar sýningar og teiknimyndasmiðja er meðal þess sem í boði verður.

Sjá dagskrá fullveldisfagnaðar í ME hér. Hún mun standa frá 13:00-15:00.

1. desember kl. 13:00-15:00
Menntaskólinn á Egilsstöðum

Hátíðartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Austurlands

Í tilefni af 100 ára fullveldi á Íslandi mun nýstofnuð Sinfóníuhljómsveit Austurlands stíga á stokk í fyrsta sinn. Boðið verður upp á hátíðleg tónlistardagskrá þar sem um þrjátíu austfirskir hljóðfæraleikarar koma fram ásamt öflugum austfirskum karlakórum og liðsauka að norðan og sunnan. Efnisskráin endurspeglar tilefnið, 100 ára afmæli fullveldisins. Að tónleikum loknum veitir Berglind Agnarsdóttir, sem jafnframt verður kynnir, gestum innsýn í breytingar á hundrað árum gegnum sögur og leik og Fjarðabyggð býður tónleikagestum í kaffi og veitingar.

Hljómsveitarstjóri Zigmas Genutis

Konsertmeistari: Zsuzsanna Bitay

Kynnir: Berglind Agnarsdóttir

1. desember kl. 15:00-16:00
Tónlistarmiðstöð Austurlands,
Eskifirði

Fullveldishátíð vopnfirðinga

Vopnafjarðarskóli, í samstarfi við Menningarmálanefnd, býður til fullveldishátíðar í Vopnafjarðarskóla laugardaginn 1. desember. Hundrað ár verða þá liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki.

Húsið opnar kl. 13:30 en formleg dagskrá hefst kl. 14 með ávarpi.

Meðal dagskrárefnis er söngur Kórs Vopnafjarðarskóla og Karlakórs Vopnafjarðar. Þá flytja nemendur ljóð og veittar verða viðurkenningar í ljóðasamkeppni nemenda.

Í skólanum verða til sýnis verkefni nemenda sem unnin verða á þemadögum þar sem þemað er saga Íslands og fullveldisárið 1918.

Að dagskrá lokinni er gestum boðið að þiggja kaffiveitingar í boði Ungmennafélagsins Einherja en 1. desember er 89 ára afmælisdagur félagsins.

1. desember kl. 13:30-15:30
vopnafjarðarskóli

Sýning í Löngubúð Djúpavogi

Á Djúpavogi verður opnuð sýningin: ,,Gammur, griðungur, dreki og bergrisi“ þar sem unnið er með fyrsta landvættaskjaldarmerki Íslands sem Ríkarður Jónsson gerði. Á sýningunni eru verk eftir Ríkarð, nemendur grunnskólans og leikskólans. Einnig verður önnur dagskrá til skemmtunar og fróðleiks. Léttar veitingar verða í boði.

1. desember kl. 14:00
Langabúð Djúpavogi