Árið 1918

1918_Landscape.jpg
 

Árið 1918 var viðburðaríkt ár, fyrri heimstyrjöldinni lauk, Rússakeisari og fjölskylda hans voru tekin af lífi í kjölfar byltingar þar í landi árið áður og spánska veikin gekk yfir heimsbyggðina og kostaði 25 milljón mannslíf. 

Á Íslandi byrjaði árið með gríðarlegum kuldum og vegna heims-styrjaldarinnar voru kol af skornum skammti. Kuldinn fór mest í
-38 gráður á Möðrudal og Grímsstöðum á Fjöllum og á Austurlandi mældist frostið t.d. 26 gráður á Seyðisfirði þann 21. janúar. Hafís umlukti landið frá Hornströndum og suður fyrir Gerpi í austri. Katla byrjaði að gjósa 12. október með miklum afleiðingum sunnanlands og víðar og spánska veikin barst með skipum frá Danmörku og Bandaríkjum til Reykjavíkur viku síðar. Með víðtækum og ströngum sóttvörnum, einangrun og takmörkunum á ferðafrelsi fólks tókst að hindra útbreiðslu þannig að hún barst ekki á Norður- eða Austurland. Alls létust 484 einstaklingar úr spánsku veikinni skv. opinberum tölum og kom hún langharðast niður á Reykvíkingum. 

Þann 1. desember  fékk Ísland  fullveldi og varð frjálst ríki með gildistöku sambandslaganna. Það þýddi að Íslendingar réðu yfir sínum málum fyrir utan utanríkismál og landhelgisgæslu auk þess sem Danakonungur var þjóðhöfðingi landsins. Þennan dag var íslenska fánanum flaggað í fyrsta sinn sem fullgildum þjóðfána.

Á Vísindavefnum má finna frekari upplýsingar um hið merka ár 1918.